Lögreglan í Sydney þurfti að loka einni vinsælustu baðströnd borgarinnar, Bondi Beach, eftir að fjöldi fólks á ströndinni fór yfir leyfilegan fjölda samkvæmt samkomubanni. Heilbrigðisráðherra landsins hefur gagnrýnt hegðun fólksins og segir hana óásættanlega.
Samkomubannið í Ástralíu nær til allra samkoma þar sem fimm hundruð eða fleiri koma saman utandyra og er hámarkið sett við hundrað manns innandyra. Fólk er hvatt til þess að halda eins og hálfs metra fjarlægð milli hvors annars og fari fólk gegn reglum samkomubannsins gæti lögregla verið kölluð til.
Það varð raunin á Bondi Beach í gær þegar hundruð manna komu saman á ströndinni og ætluðu að nýta góða veðrið þann daginn. Ljóst var að fjöldinn fór yfir fimm hundruð og var því lögregla kölluð til og ströndinni lokað tímabundið.
Bondi Beach empty, hill pretty packed #Bondi #bondibeach pic.twitter.com/TLIoDVnD7V
— Kalifauna (@Kali_Austin) March 21, 2020
Greg Hunt, heilbrigðisráðherra landsins, sagði það bera vott um afneitun að sjá tugi fjölskyldna nota almenningssturtur og klósett á ströndinni þegar yfirvöld hefðu gefið það út að fólk ætti að forðast slíkar fjöldasamkomur. Hegðun þeirra væri óðásættanleg og kallaði hann eftir auknum aðgerðum af hálfu borgaryfirvalda á hverjum stað fyrir sig til þess að tryggja að fólk fylgdi fyrirmælum. Það væri lífsnauðsynlegt fyrir marga að fólk virti slík fyrirmæli.
Forsætisráðherrann Scott Morrison kynnti frekari aðgerðir í gær til þess að bregðast við útbreiðslu kórónuveirunnar sem veldur COVID-19 sjúkdómnum. Yfir þúsund hafa smitast og sjö látist af völdum sjúkdómsins í landinu.