Sameinuðu þjóðirnar: Alþjóðleg aðgerðaráætlun vegna kórónaveirunnar 26. mars 2020 10:52 SÞ António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna fór í gær fram á 268 milljarða króna fjárhagsaðstoð til að standa straum af mannúðaraðstoð við þau ríki sem höllustum fæti standa gagnvart kórónafaraldrinum. Veiran hefur nú skotið rótum í öllum heimshornum og náð til ríkja sem þegar eiga undir högg að sækja vegna vopnaðra átaka, náttúruhamfara og loftslagsbreytinga. „COVID-19 er ógn við gjörvallt mannkyn og því verður mannkynið allt að hefja gagnsókn. Við verðum að koma þeim til aðstoðar sem eru sérstaklega berskjaldaðir,” segir Guterres. „Sameinuðu þjóðirnar biðja um mannúðaraðstoð til að verja milljónir manna og koma í veg fyrir að kórónaveiran nái að fara annan hring í kringum hnöttinn,“ segir í frétt frá Upplýsingaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna, UNRIC. Þar segir að aðgerðaráætluninni verði hrundið í framkvæmd af stofnunum Sameinuðu þjóðanna og beinni þátttöku almannasamtaka. Markmiðin séu að koma til skila búnaði til að greina veiruna og til að sinna sjúklingum, koma upp handþvottaaðstöðu í flóttamannabúðum og á almannafæri þar sem þörf krefur, skipuleggja upplýsingaherferð um það hvernig almenningur getur varið sig og aðra fyrir veirunni – og að koma upp loftbrú og miðstöðvum um alla Afríku, Asíu og Suður-Ameríku til þess að flytja hjálparstarfsfólk og birgðir þangað sem þörfin er mest. Til að koma aðgerðaáætluninni af stað hefur þegar verið veitt 60 milljónum bandarískra dala úr Neyðarsjóði Sameinuðu þjóðanna (CERF) til viðbótar við þær 15 milljónir sem sjóðurinn hafði áður lagt fram vegna heimsfaraldursins. Framlagið fer meðal annars til þess að styðja Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) til að viðhalda samfellu í birgðakeðju, flutningi starfsfólks og hjálpargagna, styðja Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina (WHO) í aðgerðum sem miða að því að stöðva útbreiðslu heimsfaraldursins, og til að styðja aðrar stofnanir sem veita mannúðaraðstoð og þeim vernd sem verst hafa orðið fyrir barðinu á heimsfaraldrinum, þar á meðal stúlkum, konum, flóttafólki og fólki á vergangi. Mark Lowcock mannúðarstjóri Sameinuðu þjóðanna segir að það væri grimmilegt og óskynsamlegt að snúa baki við fátækustu og berskjölduðust þjóðunum. „Ef kórónaveiran fær að breiðast út óáreitt verða líf milljóna manna í hættu, heilu heimshlutarnir kynnu að verða glundroða að bráð og veiran gæti farið annan hring um plánetuna.” Rúmlega 21 þúsund manns hafa látið lífið á heimsvísu vegna COVID-19 og fjöldi staðfestra tilfella er rúmlega 473 þúsund. Sjá nánar frétt UNRIC: SÞ biðja um aðstoð handa fátækum ríkjum vegna COVID-19 Sjá nánar frétt UNICEF: Sameinuðu þjóðirnar hrinda í framkvæmd alþjóðlegri aðgerðaáætlun vegna COVID-19 Þessi grein er hluti af samstarfi Vísis og utanríkisráðuneytisins um miðlun frétta af þróunarsamstarfi Íslands um allan heim. Fréttin birtist fyrst í Heimsljósi, upplýsingaveitu utanríkisráðuneytisins um þróunar- og mannúðarmál. Þróunarsamvinna Mest lesið Skip úr skuggaflotanum hægði grunsamlega mikið á sér Erlent Reyndu að ræna hraðbanka Innlent Áfengissala á helgidögum þjóðkirkjunnar stöðvuð af lögreglu Innlent Rússar vara við því að hrapað sé að ályktunum áður en rannsókn lýkur Erlent Komu hesti til bjargar úr gjótu Innlent Hættulega heitir dagar fleiri og mannskæðari en áður Erlent Holtavörðuheiði enn lokuð Innlent Spáir stillu og miklu svifryki um áramótin Veður Icelandair skoðar næstu skref í þróun flugflotans Innlent Þau eru tilnefnd sem maður ársins 2024 Innlent
António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna fór í gær fram á 268 milljarða króna fjárhagsaðstoð til að standa straum af mannúðaraðstoð við þau ríki sem höllustum fæti standa gagnvart kórónafaraldrinum. Veiran hefur nú skotið rótum í öllum heimshornum og náð til ríkja sem þegar eiga undir högg að sækja vegna vopnaðra átaka, náttúruhamfara og loftslagsbreytinga. „COVID-19 er ógn við gjörvallt mannkyn og því verður mannkynið allt að hefja gagnsókn. Við verðum að koma þeim til aðstoðar sem eru sérstaklega berskjaldaðir,” segir Guterres. „Sameinuðu þjóðirnar biðja um mannúðaraðstoð til að verja milljónir manna og koma í veg fyrir að kórónaveiran nái að fara annan hring í kringum hnöttinn,“ segir í frétt frá Upplýsingaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna, UNRIC. Þar segir að aðgerðaráætluninni verði hrundið í framkvæmd af stofnunum Sameinuðu þjóðanna og beinni þátttöku almannasamtaka. Markmiðin séu að koma til skila búnaði til að greina veiruna og til að sinna sjúklingum, koma upp handþvottaaðstöðu í flóttamannabúðum og á almannafæri þar sem þörf krefur, skipuleggja upplýsingaherferð um það hvernig almenningur getur varið sig og aðra fyrir veirunni – og að koma upp loftbrú og miðstöðvum um alla Afríku, Asíu og Suður-Ameríku til þess að flytja hjálparstarfsfólk og birgðir þangað sem þörfin er mest. Til að koma aðgerðaáætluninni af stað hefur þegar verið veitt 60 milljónum bandarískra dala úr Neyðarsjóði Sameinuðu þjóðanna (CERF) til viðbótar við þær 15 milljónir sem sjóðurinn hafði áður lagt fram vegna heimsfaraldursins. Framlagið fer meðal annars til þess að styðja Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) til að viðhalda samfellu í birgðakeðju, flutningi starfsfólks og hjálpargagna, styðja Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina (WHO) í aðgerðum sem miða að því að stöðva útbreiðslu heimsfaraldursins, og til að styðja aðrar stofnanir sem veita mannúðaraðstoð og þeim vernd sem verst hafa orðið fyrir barðinu á heimsfaraldrinum, þar á meðal stúlkum, konum, flóttafólki og fólki á vergangi. Mark Lowcock mannúðarstjóri Sameinuðu þjóðanna segir að það væri grimmilegt og óskynsamlegt að snúa baki við fátækustu og berskjölduðust þjóðunum. „Ef kórónaveiran fær að breiðast út óáreitt verða líf milljóna manna í hættu, heilu heimshlutarnir kynnu að verða glundroða að bráð og veiran gæti farið annan hring um plánetuna.” Rúmlega 21 þúsund manns hafa látið lífið á heimsvísu vegna COVID-19 og fjöldi staðfestra tilfella er rúmlega 473 þúsund. Sjá nánar frétt UNRIC: SÞ biðja um aðstoð handa fátækum ríkjum vegna COVID-19 Sjá nánar frétt UNICEF: Sameinuðu þjóðirnar hrinda í framkvæmd alþjóðlegri aðgerðaáætlun vegna COVID-19 Þessi grein er hluti af samstarfi Vísis og utanríkisráðuneytisins um miðlun frétta af þróunarsamstarfi Íslands um allan heim. Fréttin birtist fyrst í Heimsljósi, upplýsingaveitu utanríkisráðuneytisins um þróunar- og mannúðarmál.
Þróunarsamvinna Mest lesið Skip úr skuggaflotanum hægði grunsamlega mikið á sér Erlent Reyndu að ræna hraðbanka Innlent Áfengissala á helgidögum þjóðkirkjunnar stöðvuð af lögreglu Innlent Rússar vara við því að hrapað sé að ályktunum áður en rannsókn lýkur Erlent Komu hesti til bjargar úr gjótu Innlent Hættulega heitir dagar fleiri og mannskæðari en áður Erlent Holtavörðuheiði enn lokuð Innlent Spáir stillu og miklu svifryki um áramótin Veður Icelandair skoðar næstu skref í þróun flugflotans Innlent Þau eru tilnefnd sem maður ársins 2024 Innlent