Í gær fór Stóri plokkdagurinn fram um allt land og voru tugir tonna af rusli tíndir úr náttúrunni af plokkurum. Dagurinn var tileinkaður dugnaði starfsfólks heilbrigðisstofnana landsins og var dagurinn settur á lóð Landspítalans í Fossvogi af Guðna Th. Jóhannessyni, forseta, Elizu Reid, forsetafrú, og Guðmundi Inga Guðbrandssyni umhverfisráðherra.

Í tilkynningu frá Plokki á Íslandi kemur fram að þátttaka almennings hafi aldrei verið meiri og jafn áberandi og að góða veðrið hafi sannarlega sett svip sinn á daginn. Sjónum var beint að því að plokka upp rusl í kring um heilbrigðisstofnanir.
„Aldrei hefur þátttaka almennings verið meiri og jafn áberandi og hún var í gær. Hópurinn þakkar samstilltu samfélagi og fjölskyldum sem notað hafa Covid-19 tímann til að efla útivist og umhverfisvitund sem var mjög áberandi á deginum í ár,“ segir í tilkynningunni.

Þá er sveitarfélögum landsins sérstaklega þakkað en þau hvöttu mörg hver til plokksins og studdu við það eftir mæti. „Að plokka gefur fólki tækifæri til að sameina útiveru og hreyfingu sem og að sýna umhverfinu og samfélaginu kærleik í verki. Það er tilvalið í samkomubanni þar sem auðvelt er að virða tveggja metra regluna.“