Norski auðjöfurinn Tom Hagen, sem í gær var úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald grunaður um að hafa orðið konu sinni, Anne-Elisabeth Hagen, að bana, mun áfrýja úrskurðinum. Þetta staðfestir Svein Holden verjandi Hagen í samtali við norska miðilinn Dagbladet.
Holden segir málatilbúnað lögreglu byggja á afar veikum grunni. Hann gaf það þegar út í gær að hann hefði krafist þess að Hagen verði látinn laus.
Hagen var handtekinn á þriðjudagsmorgun og þar með varð óvæntur vendipunktur í stærsta sakamáli Noregs síðustu ára: hvarfi eiginkonu hans, Anne-Elisabet. Ekkert hefur spurst til hennar síðan hún hvarf af heimili þeirra í Lørenskógi rétt utan við Ósló þann 31. október 2018.
Hagen var leiddur fyrir dómara í gær og þinghald, sem fór fram fyrir luktum dyrum, stóð yfir í nokkra klukkutíma, sem er harla óvenjulegt.
Hagen var að endingu úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald og þá verður hann auk þess í algjörri einangrun fyrstu tvær vikurnar. Hann sætir jafnframt bréfa,- heimsóknar- og fjölmiðlabanni allan tímann sem hann er í haldi.
Í úrskurði dómstólsins segir að raunveruleg hætta sé á því að Hagen eyðileggi sönnunargögn gangi hann laus. Hann gæti þannig fjarlægt eða eyðilagt sönnunargögn á stöðum sem lögreglan hefur ekki rannsakað nú þegar eða á eftir að rannsaka nánar.