Handbolti

Ágúst heldur kyrru fyrir í Krikanum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ágúst er öflugur línumaður.
Ágúst er öflugur línumaður. vísir/vilhelm

Handboltamaðurinn Ágúst Birgisson hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við FH.

Línumaðurinn öflugi hefur verið í lykilhlutverki hjá FH síðan hann kom til liðsins frá Aftureldingu í ársbyrjun 2016.

Ágúst varð deildarmeistari með FH 2017 og bikarmeistari 2019. Þá var hann í liði FH sem fór í úrslit um Íslandsmeistaratitilinn 2017 og 2018. Ágúst var valinn varnarmaður ársins á lokahófi HSÍ 2017.

„Ágúst hefur staðið sig frábærlega fyrir FH síðastliðin ár og erum við gríðarlega ánægðir að hann verði áfram hjá okkur. Ágúst er mikill liðsfélagi og mikill FH-ingur sem hefur með frammistöðu sinni og ekki síst baráttuvilja sínum og keppnisskapi, unnið hug og hjörtu stuðningsmanna okkar,“ sagði Ásgeir Jónsson, formaður handknattleiksdeildar FH, eftir undirskriftina.

Á síðasta tímabili skoraði Ágúst 48 mörk í 18 leikjum í Olís-deild karla og var með 73 prósent skotnýtingu. FH-ingar voru í 2. sæti deildarinnar þegar keppni var hætt vegna kórónuveirufaraldursins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×