„Ég fann ekkert fyrir þessu. Sumir eru hræddir við að láta sprauta sig en þetta er bara smá tilfinning og búið. En sumir geta orðið veikir en ég varð ekkert var við neina breytingu,“ segir Stefán, sem nýfluttur er á hjúkrunardeild Heilbrigðisstofnunar Austurlands í Neskaupstað og unir þar hag sínum vel.
Þá er þetta ekki fyrsti heimsfaraldurinn sem Stefán upplifir en hann er fæddur árið 1916. Spænska veikin barst fyrst til landsins haustið 1918 og Stefán minnist þess að veikin hafi borist austur á heimahagana.
„Það var algjör faraldveiki. Ég man ekki hvað dóu margir Íslendingar úr spænsku veikinni en það voru mjög margir, geysilegt mannfall. Sérstaklega í Reykjavík. Það var eini þéttbýlisstaðurinn þá á Íslandi. Það urðu einhverjir veikir heima á Norðfirði líka en ég man ekki hvort það var þá sem ég var nokkuð lengi veikur.“
Elstu Íslendingarnir hafa margir verið bólusettir fyrir kórónuveirunni síðustu daga. Sú elsta, Dóra Ólafsdóttir fædd 1912, var bólusett á hjúkrunarheimilinu Skjóli í Reykjavík og sú næstelsta, Nanna Franklínsdóttir, 104 ára, var bólusett á Siglufirði.