Katrín Tanja er farin aftur til Bandaríkjanna þar sem hún mun á næstunni hefja æfingar hjá þjálfara sínum Ben Bergeron í Boston.
Katrín Tanja kvaddi Ísland í gær en hún hafði áður sett inn hvetjandi færslu á Instagram síðu sína eins og sjá má hér fyrir neðan.
Í færslunni hvetur hún fylgjendur sína að vera þeir sjálfir og að gefa aldrei upp vonina þó að hún sé jafnvel bara eitt prósent.
„Verið nógu hugrökk til að vera þið sjálf,“ byrjaði Katrín Tanja Davíðsdóttir nýárspistilinn sinn. Hún hélt áfram:
„Tjáið ykkur án þess að pæla í því hvernig þið komið fyrir. Gangið á eftir hlutunum sem þið viljið ná í lífinu og trúið því að ef einhver getur það þá getið þið það,“ skrifaði Katrín Tanja
„Verið hreinskilin og opin í ykkar samtölum og leyfið tilfinningunum að koma fram. Verið óhrædd við að gera mistök því möguleikinn að þetta muni ganga upp er alltaf áhættunnar virði,“ skrifaði Katrín Tanja
„Þó að það séu bara eitt prósent líkur þá á maður alltaf að halda í vonina,“ skrifaði Katrín Tanja og endaði síðan á þessum orðum:
„Það er frelsi í sannleikanum og fegurð í hverjum og einum. Verið nógu hugrökk til að vera þið sjálf,“ skrifaði Katrín Tanja og sendi fylgjendum sínum að auki kossa.
Myndin af Katrínu Tönju út í íslensku náttúrunni er líka til mikillar fyrirmyndar.