Fimm eða fleiri opnar launakröfur liggja hjá tveimur fyrirtækjum upp á samtals um 17 milljónir króna. Misvel gengur að innheimta kröfurnar og berst stéttarfélagið fyrir því að stjórnvöld efni loforð sitt um sektarheimild „févíti“ í því skyni að bæta árangur innheimtunnar. Af heildarfjölda launakrafna voru 15 kröfur í þrotabú upp á 17,3 mkr.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Eflingu.
Af hátt í 25 þúsund greiðandi félögum í Eflingu voru um 54 prósent af erlendum uppruna í nóvember. Hins vegar var hlutfall félagsmanna af erlendum uppruna sem leituðu til Kjaramálasviðs 64 prósent á ársfjórðungnum. Mörg mál tengjast greiðslu uppsagnarfrests og kemur það heim og saman við að af 3.711 atvinnulausum Eflingarfélögum voru 75 prósent af erlendum uppruna og 25 prósent af íslenskum uppruna í október síðastliðnum.
Atvinnuleysi meðal Eflingarfélaga var á þessum tíma nokkuð hærra en annars staðar á vinnumarkaði. Atvinnuleysi meðal Íslendinga var 10,6 prósent en atvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgara 24 prósent í nóvember samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar. Atvinnuleysi kemur því harðar niður á erlendum einstaklingum á vinnumarkaði en íslenskum og enn harðar niður á erlendu verka- og láglaunafólki en öðrum hópum erlendra starfsmanna á vinnumarkaði.
Forsvarsmenn Eflingar segja að við þjónustu erlendra félagsmanna kemur sér vel að Efling býr yfir fjölda starfsmanna af ólíkum uppruna og með mikla tungumálakunnáttu. Meðal tungumála sem töluð eru reiprennandi í starfsmannahópnum megi nefna ensku, pólsku, litháísku, lettnesku, rússnesku, mandarín kínversku og spænsku.