Elvar, sem er 23 ára, verður því enn frekar lærisveinn landsliðsþjálfarans Guðmundar Guðmundssonar sem þjálfar Melsungen. Fyrir hjá félaginu er einnig Arnar Freyr Arnarsson, liðsfélagi Elvars í landsliðinu sem mætir Sviss á HM í dag kl. 14.30.
Samkvæmt heimildum Vísis verður formlega tilkynnt um félagaskipti Elvars að heimsmeistaramótinu loknu.

Elvar bætist þar með í stóran hóp Íslendinga í bestu félagsliðadeild í heimi en í landsliðshópi Íslands í Egyptalandi eru fyrir ellefu leikmenn sem spila í efstu deild Þýskalands.
Elvar er í dag leikmaður Skjern í Danmörku þar sem hann hefur leikið við góðan orðstír eftir komuna frá Selfossi 2019. Elvar var valinn besti leikmaður Olís-deildarinnar hér á landi tvö ár í röð áður en hann hélt í atvinnumennsku.
Kórónuveirufaraldurinn hefur truflað tímabilið hjá Melsungen sem hefur aðeins leikið 10 leiki í þýsku deildinni í vetur á meðan að flest lið hafa leikið 14-16 leiki. Melsungen er þó í 13. sæti með 13 stig.