Líkt og kunnugt er tók Joe Biden við embætti forseta Bandaríkjanna í dag, en það var eitt af fyrstu verkum nýs varaforseta í embætti, Kamölu Harris, að sverja Ossoff í embætti öldungardeildarþingmanns. Ossoff er nú ekki aðeins yngsti þingmaður öldungadeildarinnar, heldur einnig fyrsti Gyðingurinn til að verða öldungadeildarþingmaður fyrir Georgíu-ríki.
Kamala Harris sór einnig í embætti þá Raphael Warnock, sem einnig tekur sæti sem öldungadeildarþingmaður fyrir Georgíu, og Alex Padilla, sem tekur við sæti hennar sjálfrar sem öldungadeildarþingmaður fyrir Kaliforníu. Embættistaka þeirra er sömuleiðis söguleg en Warnock er fyrsti svarti öldungadeildarþingmaðurinn frá Georgíu auk þess sem Padilla er fyrsti öldungadeildarþingmaðurinn fyrir Kaliforníu sem er af suður-amerískum uppruna.
Nú eftir að öldungadeildarþingmennirnir þrír hafa svarið embættiseið skipta Demókratar og Repúblikanar með sér jafn mörgum sætum í öldungadeildinni, þar sem Repúblikanar höfðu áður meirihluta. Hvor flokkur á nú fimmtíu þingmenn í öldungadeildinni en sjálf hefur Harris oddaatkvæðið, Demókrötum í hag, þegar á reynir.