Ljóst er að gríðarlegt tjón varð í allmörgum byggingum Háskóla Íslands vegna vatnslekans. Í tilkynningu rektors til starfsfólks og nemenda í gær kemur fram að jarðhæðir Háskólatorgs og Gimli verði ónothæfar næstu mánuði.
Hámu og Bóksölunni á Háskólatorgi var lokað í gær en voru opnaðar aftur í dag. Vonast var til að hægt yrði að opna Stúdentakjallarann á laugardag en það verður ekki fyrr en á þriðjudag.

Kristinn Jóhannesson, sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs Háskóla Íslands, segir að hreinsunarstarf haldi áfram í skólanum í dag - mikið verk sé enn fyrir höndum.
„Það er verið að vinna í að gera við búnað, svo sem eins og lyftur og reyna að koma rafmagni á, að minnsta kosti ljósarafmagni á bygginguna sem sló alveg út og skoða þann búnað sem bilaði í þessu flóði.“
Rektor háskólans sagðist í gær bjartsýnn á að tjónið, sem líklega hleypur á hundruð milljónum króna, fengist bætt. Kristinn segir að ekki sé komin skýrari mynd á umfang tjónsins frá því sem var í gær.
„Við erum síðan að fara af stað í að meta tjónið í dag, fá til okkar sérfræðinga til að aðstoða okkur við það og síðan hefst bara uppbygging.“