Fótbolti

Nýr landsliðsþjálfari byrjar á leik gegn Frökkum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Úr vináttulandsleik Íslands og Frakklands haustið 2019.
Úr vináttulandsleik Íslands og Frakklands haustið 2019. getty/Tim Clayton

Fyrsti leikur nýs þjálfara íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta verður gegn ógnarsterku liði Frakka.

Íslenska liðið fer á æfingamót í Frakklandi í næsta mánuði og mætir þar Frökkum, Norðmönnum og Svisslendingum. Leikirnir fara allir fram á Stade Louis-Dugauguez í Sedan fyrir luktum dyrum.

Þetta verða fyrstu leikir íslenska liðsins undir stjórn nýs landsliðsþjálfara. Ljóst er að það verður ekki Elísabet Gunnarsdóttir en hún greindi frá því í gær að slitnað hefði upp úr samningaviðræðum hennar og KSÍ.

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari Íslandsmeistara Breiðabliks, þykir nú langlíklegastur til að taka við kvennalandsliðinu.

Hann, eða sá sem tekur við landsliðinu, byrjar ekki á neinum smá leikjum. Frakkland er í 3. sæti styrkleikalista FIFA, Noregur í 11. sætinu og Sviss í því nítjánda. Ísland er í 16. sæti heimslistans.

Ísland mætir Frakklandi 17. febrúar, Noregi 20. febrúar og Sviss 23. febrúar.


Tengdar fréttir

Ekki ásættanlegt að gera landsliðsþjálfarastarfið að hlutastarfi

„Ég held að við værum ekki einu sinni að ræða þetta ef að um karlalandsliðið væri að ræða,“ segir Guðni Bergsson, formaður KSÍ, um þá niðurstöðu að ráða ekki Elísabetu Gunnarsdóttur í starf landsliðsþjálfara samhliða starfi hennar sem þjálfari Kristianstad.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×