Mechichi skipti meðal annars út þungavigtarmönnum í ríkisstjórninni og koma meðal annars nýir ráðherrar innanríkismála, heilbrigðismála og dómsmála inn í ríkisstjórnina. Mechichi kveðst vona að með þessu verði ríkisstjórnin „skilvirkari“ í sínum störfum.
Þúsundir manna hafa síðustu daga haldið út á götur til að mótmæla aukinni fátækt í landinu og því sem lýst er sem afskiptaleysi stjórnmálastéttarinnar. Mechichi segir ríkisstjórnina ætla að hlusta á raddir mótmælendanna.
Hrókeringarnar í ríkisstjórninni hafa þó einnig leitt til aukinnar togstreitu milli forsætisráðherrans og forsetans Kais Saied. Saied segist ekkert hafa verið með í ráðum og fullyrðir að sumir hinna nýju ráðherra séu grunaðir um spillingu.
Þegar verið var að staðfesta nýja ráðherra í þinginu héldu sumir stjórnarandstæðingar á myndum af ungum mótmælenda sem lét á dögunum lífið í átökum við lögreglu.
Þessi nýja bylgja mótmæla kemur um svipað leyti og þess er minnst að tíu ár eru nú liðin frá mótmælaöldunnar 2011 sem leiddi til falls einræðisherrans Ben Ali. Mótmælin í Túnis þá voru kveikjan að Arabíska vorinu svokallaða.