Það er talin mikil upphefð fyrir tónlistarmenn að vera með atriðið í hálfleik Ofurskálarinnar og sýningin er jafnan mikið sjónarspil.
Atriði The Weeknd bar hins vegar með sér að það var sett upp á tímum kórónuveirufaraldurs og sóttvarnaráðstafana.
Þannig þurfti hann að flytja atriðið að mestu leyti frá áhorfendapöllunum en ekki frá vellinum sjálfum nema að hluta og það var mun minna um hvers kyns brellur en síðustu ár.
Þá var leikvangurinn ekki fullur vegna samkomutakmarkana; aðeins 25 þúsund manns voru á áhorfendapöllunum en 30 þúsund pappaspjöldum hafði síðan verið komið fyrir í þeim sætum sem voru tóm.
Gagnrýnandi BBC segir tónlist The Weeknd hafa fengið að njóta sín í atriðinu. Eins og áður segir var lítið um brellur og ekki steig tónlistarmaðurinn mörg dansspor eins og gjarnan er í hálfleiksatriðum Ofurskálarinnar.
Atriðið má sjá í spilaranum ofar í fréttinni.