Viðskipti innlent

Þrír ráðnir til Dohop

Atli Ísleifsson skrifar
Daði Steinn Brynjarsson, Ingi Fjalar Magnússon og Kristján Þór Jónsson.
Daði Steinn Brynjarsson, Ingi Fjalar Magnússon og Kristján Þór Jónsson. dohop

Ingi Fjalar Magnússon, Daði Steinn Brynjarsson og Kristján Þór Jónsson hafa verið ráðnir sem sérfræðingar hjá ferðatæknifyritækinu Dohop.

Í tilkynningu segir að Dohop hafi nýverið tryggt sér á annan milljarð íslenskra króna í fjármögnun frá breska fjárfestingasjóðnum Scottish Equity Partners (SEP) sem sérhæfi sig í fjárfestingum í tæknifyrirtækjum. Ætli fyrirtækið að nýta fjármagnið til þess að byggja upp félagið og ráða fólk með tækniþekkingu á Íslandi.

Ingi Fjalar Magnússon hefur verið ráðinn tæknilegur vörustjóri hjá Dohop. Hann er sagður hafa um tuttugu ára reynslu af verkefnastjórnun, hugbúnaðarþróun og innleiðingu tölvukerfa, bæði erlendis og hér heima. 

„Hann starfaði meðal annars um 11 ára skeið sem verkefnisstjóri hjá alþjóðlega fyrirtækinu Statoil þar sem hann vann að uppbyggingu hugbúnaðar og innleiðingu tölvukerfa í Noregi, Suður-Kóreu og Skotlandi. Einnig hefur hann starfað hjá Össuri, Nordea bankanum og Applicon.

Ingi Fjalar er með MBA gráðu frá BI Viðskiptaháskólanum í Noregi ásamt því að vera tölvunarfræðingur frá Háskóla Íslands.

Daði Steinn Brynjarsson hefur verið ráðinn sem forritari hjá Dohop. Daði lauk námi við tölvunarfræði hjá Háskólanum í Reykjavík síðastliðið haust og kom til Dohop í beinu framhaldi. Daði er partur af teymi sem sér meðal annars um að hanna hugbúnað til að betrumbæta þjónustu til viðskiptavina Dohop. Innan teymisins mun Daði leggja hjálparhönd sem viðmótsforritari.

Kristján Þór Jónsson hefur verið ráðinn sem nýr hugbúnaðarsérfræðingur hjá Dohop.

Hann mun starfa í teymi sem sér um greiðslulausnir Dohop þar sem hann mun vinna við að þróa áfram bókunarkerfið til að taka við greiðslum hnökralaust.

Kristján er með BSc í fjármálaverkfræði og einnig í hugbúnaðarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Hann starfaði við hátíðniviðskipti síðastliðin fjögur ár fyrir World Financial Desk,“ segir í tilkynningunni.

Dohop er tæknifyrirtæki stofnað á Íslandi árið 2004, en tæknin Dohop snýst um smíða tengiflug og hjálpa flugfélögum að selja tengiflug í félagi við önnur flugfélög.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×