Gylfi Þór Sigurðsson átti frábæran leik fyrir Everton gegn sínu gamla liði. Hann skoraði eitt mark og lagði upp þrjú, meðal annars sigurmark Everton fyrir Bernard. Mörkin úr leiknum í lýsingu Guðmundar Benediktssonar má sjá hér fyrir neðan.
Tottenham komst yfir strax á 3. mínútu þegar kólumbíski miðvörðurinn Davinson Sánchez skoraði eftir hornspyrnu frá Son Heung-Min.
Dominic Calvert-Lewin jafnaði fyrir Everton á 36. mínútu eftir sendingu frá Gylfa og tveimur mínútum síðar kom Richarlison heimamönnum yfir.
Á 43. mínútu, markamínútunni sjálfri, kom Gylfi Everton í 3-1 þegar hann skoraði úr vítaspyrnu sem Calvert-Lewin náði í. Érik Lamela minnkaði muninn í 3-2 fyrir Tottenham í uppbótartíma fyrri hálfleiks.
Sánchez jafnaði fyrir Spurs á 57. mínútu með sínu öðru marki. Ellefu mínútum síðar kom Richarlison Everton aftur yfir með skoti í stöng og inn eftir sendingu Gylfa. Sjö mínútum fyrir leikslok jafnaði Harry Kane fyrir Tottenham og því þurfti að framlengja.
Þar réði mark Bernards úrslitum eins og áður sagði. Everton er því komið í átta liða úrslit bikarkeppninnar.

Enska bikarkeppnin, FA Cup, er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. FA Cup er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.