Handbolti

Ljónin ó­sigruð í Evrópu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ýmir Örn átti góðan leik fyrir Löwen í kvöld.
Ýmir Örn átti góðan leik fyrir Löwen í kvöld. Rhein-Neckar Löwen

Rhein-Neckar Löwen hefur ekki enn tapað leik í Evrópudeildinni í handbolta. Liðið vann Trimo Trebnje frá Slóveníu í kvöld, lokatölur 31-28.

Ýmir Örn Gíslason átti fínan leik með Löwen í kvöld og skoraði tvö mörk ásamt því að næla sér í gult spjald. Góður fyrri hálfleikur Ljónanna lagði grunninn að sigri þeirra í kvöld en fjórum mörkum munaði á liðunum er flautað var til loka hálfleiksins, staðan þá 15-11.

Slóvenska liðið beit aðeins frá sér í síðari hálfleik og var sóknarleikur þeirra allt annar. Það dugði þó ekki til neins þar sem Löwen vann með þriggja marka mun, 31-28.

Ljónin eru fyrir lifandi löngu búin að tryggja sér sæti í 16-liða úrslitum keppninnar og nú hefur liðið einnig tryggt sér efsta sæti D-riðils. Þar trónir liðið á toppnum hafandi leikið átta leiki, sjö hafa unnist og einn hefur endað með jafntefli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×