AP-fréttastofan segir að myndband sem nágranni náði sýni barnið hangandi utan á svölum íbúðar á tólftu hæð. Barnið er sagt þriggja ára gömul stúlka. Hún missir á endanum takið og fellur niður til jarðar.
Fjölmiðlar í Víetnam segja að sendiferðabílstjóri hafi tekið eftir stúlkunni þar sem hún hékk utan á svölunum og að hann hafi klifrað upp á hjólaskýli til að reyna að grípa hana. Þrátt fyrir að hann hafi runnið af skýlinu hafi hann náð að grípa í stúlkuna með annarri hendi.
Stúlkan er sögð hafa mjaðmarbrotnað og hlotið önnur meiðsli en ekki lífshættuleg.