Fótbolti

Marek Hamsik á leið til Gautaborgar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Marek Hamsik var lengi fyrirliði Napoli.
Marek Hamsik var lengi fyrirliði Napoli. getty/Dino Panato

Marek Hamsik, fyrirliði slóvakíska landsliðsins og leikja- og markahæsti leikmaður í sögu Napoli, er við það að ganga í raðir sænska úrvalsdeildarliðsins IFK Gautaborgar.

Expressen greinir frá því að Hamsik hafi náð munnlegu samkomulagi við Gautaborg. Hann kemur til Svíþjóðar á næstu dögum til að skrifa undir samning við félagið. Kolbeinn Sigþórsson er nýgenginn í raðir Gautaborgar sem gæti verið að fá ansi mikinn liðsstyrk.

Hamsik er á förum frá kínverska liðinu Dalian Professional sem hann hefur leikið með síðan 2019. Búist var við því að hann myndi semja við uppeldisfélagið Slovan Bratislava en ekkert varð af því þar sem félagaskiptaglugginn í Slóvakíu er lokaður.

Hamsik, sem er 33 ára, lék með Napoli í tólf ár og var um tíma fyrirliði liðsins. Hann varð bikarmeistari með Napoli 2012 og 2014.

Hamsik er bæði leikja- og markahæsti leikmaður í sögu Napoli með 520 leiki og 120 mörk.

Hann er leikjahæsti leikmaður í sögu slóvakíska landsliðsins með 126 leiki. Í þeim hefur hann skorað 26 mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×