Ntaganda er ekki talinn borgunarmaður fyrir bótunum og því fór dómstóllinn fram á það að sérstakur sjóður dómstólsins aðstoðaði við að veita fórnarlömbum hans starfsþjálfun og aðra aðstoð. Bæturnar voru dæmdar ýmsum fórnarlömbum Ntaganda í sameiningu og því rynnu þær til góðgerðarsamtaka eða sjóða sem eiga að hjálpa þeim.
Reuters-fréttastofan segir að sjóður Alþjóðasakamáladómstólsins, sem byggir á frjálsum framlögum, hafi átt um átján milljónir evra, jafnvirði um 2,7 milljarða íslenskra króna, í fyrra og að þeim fjármunum hafi nú þegar að mestu verið heitið annað.
Árið 2019 dæmdi dómstóllinn Ntaganda í þrjátíu ára fangelsi fyrir morð, nauðganir og önnur voðaverk sem voru framin þegar hann stýrði vopnaðri sveit Bandalags kongóskra föðurlandsvina (UPC) í Austur-Kongó á árunum 2002 til 2003. Ntaganda hefur áfrýjað dómnum sem var sá þyngsti í sögu Alþjóðasakamáladómstólsins.
Hundruð óbreyttra borgara voru myrtir og þúsundir flúðu heimili sín í átökunum sem hersveitir Ntaganda áttu þátt í. Ntganda hlaut viðurnefnið „Tortímandinn“ þegar hann stýrði UPC.