Handbolti

Strákarnir okkar ekki til Ísraels að sinni

Sindri Sverrisson skrifar
Guðmundur Guðmundsson og hans menn fara ekki til Ísraels í þessari viku.
Guðmundur Guðmundsson og hans menn fara ekki til Ísraels í þessari viku. EPA-EFE/Anne-Christine Poujoulat

Það verður einhver bið á því að íslenska karlalandsliðið í handbolta tryggi sér endanlega farseðilinn á næsta Evrópumót en leik liðsins við Ísrael í undankeppninni hefur verið frestað.

Leikurinn átti að fara fram í Tel Aviv á fimmtudaginn en í tilkynningu frá HSÍ kemur fram að miklar hömlur séu á flugsamgöngum til Ísraels, vegna kórónuveirufaraldursins. Því hafi handknattleikssamband Evrópu, EHF, tekið þá ákvörðun að fresta leiknum.

Í tilkynningu HSÍ segir að sambandið hafi ítrekað lent í því að flug til Ísraels hafi verið felld niður. Leikmenn Litáens áttu að mæta Ísrael annað kvöld en gátu ekki ferðast til landsins í morgun eins og til stóð, samkvæmt tilkynningu á vef handknattleikssambands Litáens.

Ekki er ljóst hvenær leikirnir fara fram en EHF mun taka ákvörðun um það á næstu dögum.

Ísland er í bestu stöðunni í riðlinum, með fjögur stig eftir betri innbyrðis úrslit gegn Portúgal (sigur og tap) og stórsigur gegn Litáen. 

Ísrael og Litáen eru án stiga en Portúgal með sex stig eftir fjóra leiki. Tvö efstu liðin komast beint á EM og liðið í 3. sæti gæti einnig komist þangað.

Ísland á eftir að spila útileikinn við Litáen sem fara á fram 29. apríl, og heimaleikinn við Ísrael sem fara á fram 2. maí.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×