„Þetta var risa sigur í kvöld. Ég var ánægður með varnarleikinn hjá okkur, við héldum Keflavík í 67 stigum sem er frábært miðað við það sem þær hafa verið að skora að meðaltali í leik. Við ræddum það fyrir leik að varnarleikurinn myndi ráða úrslitum í leiknum sem hann á endanum gerði," sagði Ólafur Jónas þjálfari Vals ánægður eftir leik.
„Við lögðum upp með að draga úr hraða Keflavíkur og leyfa þeim ekki að keyra hratt á okkur. Við fengum þær til að spila á móti okkur á hálfum velli sem hentaði okkur vel."
Valur spilaði fyrri hálfleikinn mjög vel en Keflavík svaraði því með góðum kafla þar sem þær gerðu fyrstu tíu stigin í seinni hálfleik.
„Ég sagði við stelpurnar inn í klefa í hálfleik að Keflavík myndi byrja seinni hálfleikinn af krafti, þær eru bara með þannig karakter að þær myndu koma brjálaðar inn í seinni hálfleikinn. Við lögðum áherslu á að halda kúlinu þrátt fyrir áhlaup og aldrei hætta heldur halda alltaf áfram og taka eitt stopp í einu," sagði Ólafur um mótspyrnu Keflavíkur.
Ólafur var ánægður með hvernig hans stelpur héldu sjó eftir áhlaup Keflavíkur og að lokum lönduðu þær sigrinum þokkalega sannfærandi 80 - 67.