Tedros Adhanom Ghebreyesus, yfirmaður WHO, lýsti þessu yfir á blaðamannafundi og lýsti hann sömuleiðis yfir áhyggjum sínum yfir „ógnvekjandi aðgerðaleysi“ ráðamanna á heimsvísu.
Sjá einnig: Covid-19 skilgreint sem heimsfaraldur
Í dag eru tilfellin nokkuð fleiri en þá. Tæplega 120 milljónir manna hafa greinst smitaðir af veirunni og 2,6 milljónir hafa dáið, samkvæmt gagnagrunni Johns Hopkins háskólans, sem heldur utan um opinberar tölur.
Langflestir hafa bæði smitast og dáið í Bandaríkjunum. 29,2 milljónir hafa smitast þar og 530 þúsund hafa dáið. Í Kína, þar sem veiran greindist fyrst í mönnum, hafa rúmlega hundrað þúsund smitast og um 4.800 dáið.
Hér á Íslandi hafa 6.070 greinst smitaðir og 29 hafa dáið.
Sé miðað við íbúafjölda hefur 161,5 dáið á hverja hundrað þúsund íbúa í Bandaríkjunum. Í Bretlandi er sú tala 188,3 á hverja hundrað þúsund og 166,8 á Ítalíu. Í Tékklandi hafa 210,7 af hverjum hundrað þúsund íbúum dáið, samkvæmt samantekt Sky News.
Í Kína hafa 0,3 dáið af hverjum hundrað þúsund.