Úrslitin úr prófkjöri flokksins í báðum Reykjavíkurkjördæmum, Suðvesturkjördæmi og Suðurkjördæmi voru kunngjörð nú síðdegis. Sameiginlegt prófkjör var í Reykjavík og mun endanleg skipting milli norðurs og suðurs liggja fyrir eftir helgi.
Í efstu þremur sætunum eru Björn Leví Gunnarsson, Halldórs Mogensen og Andrés Ingi Jónsson, en hann kemur nýr inn í flokkinn eftir að hafa sagt sig úr Vinstri grænum í nóvember í fyrra. Í fjórða sæti er Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, systir Helga Hrafns Gunnarssonar, sem hyggst ekki gefa kost á sér í næstu kosningum.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir leiðir lista flokksins í Suðvesturkjördæmi. Hún var áður í Reykjavík suður en Álfheiður Eymarsdóttir skipar það sæti í dag. Niðurstöður úr öðrum kjördæmum munu liggja fyrir eftir viku.
„Fyrir mig persónulega er þetta mjög fín niðurstaða. Ég kem nýr inn í hreyfinguna og fæ þarna góðan stuðning og ég er þakklátur fyrir það en það verður að gera þetta flottur listi heilt á litið. Það eru ný andlit og fólk með reynslu líka og fólk með fjölbreyttan bakgrunn þannig að þetta er mjög flottur listi fyrir kosningarnar í haust,“ segir Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata í samtali við fréttastofu.
Þrír þingmenn af sex hafa ákveðið að gefa ekki kost á sér í næstu kosningum.
„Það verður alveg hraustleg endurnýjun bara af því að það er hálfur þingflokkurinn að hætta. Við sjáum það á niðurstöðunum í dag að fólkið sem kemur í staðinn það á alveg eftir að geta fyllt í þau fótspor,“ segir Andrés.