Aðrir sambærilegir smyglkafbátar hafa allir verið framleiddir í Suður-Ameríku. Þeir marra yfirleitt í hálfu kafi, ekki ólíkt ísjökum, og eru notaðir til að flytja mikið magn fíkniefna frá Suður-Ameríku til Norður-Ameríku og Evrópu.
Í fréttatilkynningu frá Europol segir að lögreglan hafi við rannsókn málsins uppræt glæpasamtök skipuðum mönnum frá Spáni, Kólumbíu og Dóminíska lýðveldinu. Leiðtogi samtakanna var handtekinn á Spáni í nóvember í fyrra og toguðu lögregluþjónar í alla þræði honum tengdum.
Það endaði með umfangsmikilli aðgerð sem opinberuð var um helgina.
Húsleit var gerð á 47 stöðum á Spáni og 52 voru handteknir. Þá var hald lagt á rúmlega þrjú tonn af kókaíni, sjö hundruð kíló af hassi, hundrað þúsund evrur, kafbátinn og hraðbát. Þar að auki lagði lögreglan hald á um sex þúsund lítra af fíkniefnabasa
Lögreglan á Spáni stóð í samstarfi við Europol og lögreglu í Kólumbíu, Hollandi, Portúgal, Bretlandi og landamæraeftirlit Bandaríkjanna við rannsókn málsins.
Smyglkafbáturinn sem fannst var um tíu metra langur og gat borið allt að tvö tonn af fíkniefnum. Hann var smíðaður úr trefjagleri og krossvið og var með tveimur tvö hundruð hestafla vélum.
Samkvæmt Guardian telur lögreglan að glæpamennirnir hafi ætlað að sigla kafbátnum út á haf til að taka við fíkniefnum frá öðru skipi.