Samkvæmt samtökunum Stuðningur við pólitíska fanga (AAPP) hafa 89 farist það sem af er degi, þar á meðal börn. Mjanmarski fréttamiðillinn Myanmar Now, segir hins vegar 114 hafa látist á þessum blóðugasta degi ársins.
At least 114 people were killed in brutal attacks by the junta's armed forces in more than 40 cities across Myanmar on Saturday. Our reporting has been updated to reflect these figures. https://t.co/tcjRxkWICm pic.twitter.com/kkUtLCNP4L
— Myanmar Now (@Myanmar_Now_Eng) March 27, 2021
„Þeir drepa okkur eins og fugla eða hænur, meira að segja inni á okkar eigin heimilum,“ sagði Thu Ya Zaw, íbúi í Myingyan, í samtali við fréttastofu Reuters í dag.
„Við munum halda áfram að mótmæla þrátt fyrir það.“
Dagurinn í dag er þó enginn venjulegur dagur í Mjanmar en hann er hátíðisdagur hersins. Fólki hafði verið gert að halda sig heima í dag og útgöngubanni komið á. Þrátt fyrir það leituðu mótmælendur, stuðningsmenn lýðræðislega kjörinnar ríkisstjórnar landsins, á götur út til þess að mótmæla.
Mótmælin hafa staðið yfir nær allt frá fyrsta degi hertöku herforingjastjórnarinnar. Frá og með deginum í dag hafa meira en fjögur hundruð farist í mótmælum gegn hernum. Bandaríkin, Bretland og Evrópusambandið hafa öll fordæmt ofbeldið.
Herinn steypti lýðræðislega kjörinni stjórn landsins af valdastóli í kjölfar þess að lýðræðisflokkur Aung San Suu Kyi, leiðtoga ríkisstjórnarinnar, vann stórsigur í þingkosningum.
Suu Kyi hefur verið í haldi hersins frá 1. Febrúar og standa réttarhöld yfir henni nú yfir, þar sem hún hefur meðal annars verið ákærð fyrir að hafa þegið jafnvirði meira en 77 milljóna íslenskra króna og gull í mútur. Þá á hún að hafa brotið lög um náttúruhamfarir og fleira.