Erlent

„Er þetta nógu þjóð­hollt?“

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Lee Wong sýnir örin sem hann hlaut þegar hann þjónaði í bandaríska hernum.
Lee Wong sýnir örin sem hann hlaut þegar hann þjónaði í bandaríska hernum. Vísir

Undanfarin misseri hefur hatursglæpum gegn Bandaríkjamönnum af asískum uppruna fjölgað gríðarlega. Upptök þessarar bylgju hatursglæpa rekja margir til rasisma í kjölfar kórónuveirufaraldursins í garð asískra Bandaríkjamanna.

Þúsundir hafa tilkynnt ofbeldisfulla glæpi eða hatursárásir á undanförnum mánuðum og hafa þeir verið tengdir þeirri orðræðu sem myndaðist í upphafi kórónuveirufaraldursins þar sem asísku fólki var kennt um útbreiðslu Covid-19.

Sex konur af asískum uppruna voru myrtar í Atlanta í Bandaríkjunum í síðustu viku, auk tveggja annarra sem ekki voru af asískum uppruna.

Lee Wong, 69 ára gamall hermaður, flutti tilfinningaþrungna tölu á íbúafundi í Ohio í síðustu viku þar sem hann talaði gegn rasisma í garð asískra Bandaríkjamanna. Hann hefur hlotið mikið lof fyrir en á fundinum sýndi hann áhorfendum ör sem hann ber á bringunni sem hann hlaut við þjónustu sína í bandaríska hernum.

„Ég ætla að sýna ykkur hvernig þjóðrækni lítur út,“ sagði hann á fundinum á meðan hann hneppti frá skyrtunni sinni og sýndi áhorfendum örin.

„Hér er sönnun mín. Þessi ör hlaut ég þegar ég þjónaði í bandaríska hernum. Er þetta nógu þjóðhollt?“

Hann sagði frá því að fólk hafi dregið þjóðhollustu hans í efa og ýjaði hann að því að það væri vegna þess að hann „liti ekki út fyrir að vera nógu bandarískur.“

Wong flutti til Bandaríkjanna á sjöunda áratug síðustu aldar til þess að ganga þar í skóla. Hann þjónaði í bandaríska hernum í 20 ár. Þá hefur hann setið í stjórn West Chester háskólans frá árinu 2005. Hann sagði í samtali við Fox News að hann hafi orðið fyrir líkamlegum og munnlegum árásum vegna kynþáttar síns.


Tengdar fréttir

Ákærður fyrir átta morð eftir „mjög slæman dag“

Maður sem skaut átta til bana, þar af sex konur af asískum uppruna, í árásum á þrjár mismunandi nuddstofum í Atlanta í Bandaríkjunum í vikunni hefur verið ákærður fyrir átta morð. Hinn 21 árs gamli árásarmaður segist ekki vera rasisti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×