Handbolti

Ís­lendinga­liðin fjögur komust á­fram í átta liða úr­slit

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Teitur Örn átti flottan leik í liði Kristianstad í dag.
Teitur Örn átti flottan leik í liði Kristianstad í dag. Sydsvenskan

Fjögur Íslendingalið komust áfram í Evrópudeildinni í handbolta í dag. Um er að ræða Kristianstad frá Svíþjóð, GOG frá Danmörku, Rhein-Neckar Löwen og Magdeburg frá Þýskalandi.

Fyrr í dag hafði Kadetten, lið Aðalsteins Eyjólfssonar, fallið úr leik.

Kristianstad var sjö mörkum yfir er það heimsótti Ademar á Spáni í dag. Fór það svo að sænska liðið vann þriggja marka sigur, 34-31 og þar með einvígið með tíu marka mun. Teitur Örn Einarsson skoraði fjögur mörk í liði Kristianstad en Ólafur Andrés Guðmundsson lék ekki með liðinu.

Viktor Gísli Hallgrímsson og félagar í GOG heimsóttu CSKA Mosvu til Rússlands. Danska félagið leiddi með tveimur mörkum frá fyrri leik liðanna og vann leik dagsins nokkuð sannfærandi, 35-30. Það siglir þar með örugglega inn í 8-liða úrslit Evrópudeildarinnar.

Viktor Gísli varði fimm skot í leiknum.

Rhein-Neckar Löwen var með tveggja marka forystu fyrir leik dagsins gegn Nexe frá Króatíu. Lokatölur í dag 27-27 og Löwen skríður því áfram. Ýmir Örn Gíslason komst ekki á blað hjá Löwen í dag.

Magdeburg hafði unnið átta marka sigur á Eurofarm Pelister frá Norður-Makedóníu og var því í góðum málum fyrir leik dagsins í Þýskalandi. Liðið hélt uppteknum hætti og vann leik dagsins með níu marka mun, lokatölu 35-24.

Ómar Ingi Magnússon átti rólegan leik aldrei þessu vant í liði Magdeburg og skoraði „aðeins“ tvö mörk. Gísli Þorgeir Kristjánsson er meiddur á öxl og mun ekki leika með liðinu næstu vikur.

Átta liða úrslit Evrópudeildarinnar fara fram 13. og 20. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×