Repúblikanar beindu spjótum sínum einkum að Hunter Biden til að ná höggi á föður hans í aðdraganda forsetakosninganna nú í nóvember. Aðkoma Bidens yngri að stjórn áðurnefnds fyrirtækis vakti tortryggni um svipað leyti og vantrauststillaga á hendur Donald Trump, þáverandi Bandaríkjaforseta, var til umfjöllunnar í fyrra.
Biden hefur áður sagt að það hafi verið dómgreindarleysi af sinni hálfu að sitja í stjórn fyrirtækisins á sama tíma og faðir hans rak stefnu Bandaríkjastjórnar í Úkraínu.
Hann áréttaði þessa afstöðu sína í viðtalinu við BBC, sem tekið er í aðdraganda útgáfu nýrrar sjálfsævisögu hans, en sagðist þó hafa uppfyllt þau skilyrði sem krafist var til að gegna stöðunni.
Móðir Bidens, Neilia, og Naomi, ársgömul systir hans, létust í bílslysi rétt fyrir jól 1972. Biden, sem var tveggja ára þegar slysið varð, lýsti því í viðtalinu að áfallið hefði verið gríðarlegt og líklega stuðlað að fíknivandanum sem hann hefur glímt við á fullorðinsárum. Sú glíma hefur að miklu leyti verið háð fyrir opnum tjöldum en Hunter Biden hefur ítrekað ratað í fjölmiðla vegna áfengis- og eiturlyfjafíknar sinnar.
„Það er eitthvað sem vantar í kjarna hvers fíkils, sem honum finnst að þurfi að bæta upp fyrir. Ekkert getur nokkurn tímann bætt upp fyrir það. Og þess vegna deyfirðu sjálfan þig,“ sagði Biden.
Þá hafi andlát bróður hans Beau, sem lést úr krabbameini árið 2015, einnig verið honum skelfilega þungbært. Biden lýsti því að eftir að Beau dó hefðu hugsanir hans leitað á „myrkan stað“.
„Bróðir minn var nýdáinn, ég var skilinn við konuna mína, ég var aleinn í íbúð og var í raun að drekka mig í hel. Það var hryllilegt. Ég meina, sorg framkallar skrýtna hluti. Og þegar fíkn er komin í spilið er þetta mjög erfiður hlutur að yfirstíga.“