Ísland og Ítalía eigast við klukkan 14:00 á morgun. Sá leikur verður sýndur beint á YouTube-rás KSÍ og hægt verður að fylgjast með honum á Vísi.
Seinni leikurinn fer svo fram klukkan 14:00 á þriðjudaginn og verður hann sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.
Þetta eru fyrstu leikir íslenska liðsins undir stjórn Þorsteins Halldórssonar sem var ráðinn landsliðsþjálfari í lok janúar.
Íslenska liðið verður án fyrirliðans Söru Bjarkar Gunnarsdóttur og Dagnýjar Brynjarsdóttur í leikjunum tveimur gegn Ítalíu. Tveir nýliðar eru í íslenska hópnum, Blikarnir Telma Ívarsdóttir og Hafrún Rakel Halldórsdóttir.
Ítalía er í 13. sæti styrkleikalista FIFA, þremur sætum fyrir ofan Ísland. Ítalir enduðu í 7. sæti á HM í Frakklandi 2019. Ítalía sigraði Ísrael með miklum yfirburðum, 12-0, í síðasta leik sínum í febrúar.
Ísland og Ítalía hafa mæst fimm sinnum áður. Ítalir hafa unnið tvo leiki, Íslendingar einn og tvisvar hefur orðið jafntefli. Ítalía vann síðasta leik liðanna, 2-1, á Algarve-mótinu 2007. Margrét Lára Viðarsdóttir skoraði mark íslenska liðsins.