Rut var í viðtali við RÚV fyrir landsleiki Íslands og Slóveníu í umspili um sæti á HM í handbolta. Fyrri leikurinn fer fram á laugardaginn kemur klukkan 15.30 og sá síðari á miðvikudaginn eftir viku klukkan 19.45.
„Erum ekki margar í hópnum sem fengum að upplifa HM fyrir tíu árum. Það var rosalega skemmtilegt og við eigum góðar minningar þaðan. Ég vona að hinar stelpurnar í hópnum fái þá reynslu,“ sagði hin þrítuga Rut í viðtali sínu við RÚV.
„Líkurnar eru kannski ekki með okkur í liði en það er allt hægt. Ég hef góða tilfinningu fyrir þessu verkefni og hef trú á hópnum,“ bætti hún við.
Rut gekk til liðs við KA/Þór fyrir yfirstandandi tímabil en hún hafði leikið í Danmörku frá árinu 2008. Verkefni með landsliðinu í Norður-Makedóníu, æfingabann hér á landi og almennt bras í kringum kórónufaraldurinn hefur gert það að verkum að Rut hefur eytt litlum tíma á Akureyri að undanförnu.
„Ég rétt skrapp heim í einn og hálfan dag um helgina en fyrir það var mánuður síðan ég kom heim til mín. Er svo heppin að hafa dásamlegt fólk í kringum mig, kærasta og fjölskyldu, sem sýna skilning og það skiptir miklu máli. Vonandi verð ég svo komin heim 24. apríl,“ sagði Rut að endingu.
Mikilvæg verkefni framundan hjá íslenska kvennalandsliðinu í handbolta!https://t.co/MfEFzYPmMy
— RÚV Íþróttir (@ruvithrottir) April 13, 2021
Rut og stöllur hennar í KA/Þór hafa heldur betur staðið fyrir sínu á tímabilinu en liðið er sem stendur efst í Olís-deild kvenna með 19 stig eftir 12 leiki, stigi meira en Fram sem er í 2. sæti deildarinnar.