„Hugmyndin að þáttunum vaknaði fyrir nokkru síðan en við létum verða af því að framkvæma hana síðastliðið vor og byrjuðum tökur í maí á síðasta ári og auðvitað tafðist allt ferlið svolítið út af þessu blessuðu covid,“ segir Bjarni Freyr Pétursson og heldur áfram.
„Hugmyndin gengur út á að gera ferska spjall- og skemmtiþætti með afslappað umhverfi og svolítið svona eins og þú sért að horfa á tvo vini sem eru að taka þennan klassíska rúnt um Reykjavík og spjalla. Í þáttunum er spjallað við tónlistarfólk úr ólíkum áttum. Við förum með fólkinu í bíltúr og ræðum um allt milli himins og jarðar og kynnumst nýjum hliðum á því. Við brjótum þættina upp með óvæntum uppákomum. Spákonur og tattú koma til að mynda við sögu í þeim,“ segir Bjarni Freyr en með því segir hann að þeir nái að halda áhorfandanum spenntum allan tímann.
Í þáttunum er rætt við tónlistarfólk eins og Séra Jón, Siggu Beinteins, dj. flugvél og geimskip, Blaz Roca, Grétu Salóme og Steina í Quarashi. Fyrsti þátturinn fer í loftið á Vísi 5.maí og verður fyrstu gesturinn Elli Grill. Hér að neðan má sjá stiklu úr þáttunum átta.