Heildarumfang sértækra stuðningsaðgerða nemur hingað til ríflega 80 milljörðum króna. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu starfshóps fjármála- og efnahagsráðherra um eftirfylgni efnahagsaðgerða vegna faraldursins.
Ef horft er á stærstu sértæku stuðningsaðgerðirnar hafa um 72% verið í formi tilfærslna, 15% í ríkistryggðra lána og 13% í frestun skattgreiðslna fram til þessa. Auk þess hafa um 27 milljarðar króna verið greiddir úr séreignasjóðum og 7 milljarðar króna verið endurgreiddir aukalega af virðisaukaskatti. Við þessi úrræði leggst kostnaður vegna ýmissa félagslegra úrræða, kostnaður heilbrigðiskerfisins auk fjárfestingarátaks.
Frá þessu er greint í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins en um fjórðungur fyrirtækja í öllum stærðaflokkum hafa nýtt sér eitthvert úrræðanna.
Hlutabætur eru umfangsmesta úrræði stjórnvalda, en greiðslur vegna þeirra nema 28,1 milljörðum króna. Næst eru stuðnings- og viðbótarlán (12,2 milljarðar króna), greiðsla launa á uppsagnarfresti (12,2 milljarðar króna) og hefur skattgreiðslum verið frestað fyrir 10,2 milljarða króna.
Greiddir hafa verið tekjufallsstyrkir fyrir nær 10 milljarða króna til um 2 þúsund rekstraraðila og viðspyrnustyrkir fyrir 2,3 milljarða króna til yfir 700 fyrirtækja og einyrkja.