Metdagur er í bólusetningum í Laugardalshöll í dag þegar stefnt er að því að gefa níu þúsund manns fyrri skammtinn af bóluefni AstraZeneca við covid 19. Skipulagið í gömlu Hölllinni er til mikillar fyrirmyndar og þrátt fyrir langar raðir skotgengur að bólusetja fólk.

Það var engu líkara en rokkstjarna hefði gengið í salinn þegar viðstaddir áttuðu sig á að Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir var mættur í húsið til að fá sína fyrri bólusetningu.
Hvernig leggst þetta í þig Þórólfur?
„Ég er mjög spenntur. Þetta er flott.“
Ánægður að fá AstraZeneca?
„Algjörlega. Þetta er toppurinn.“
Þetta er stór dagur í bólusetningum og væntanlega góður dagur í þínum huga?
„Já það er frábært hvað þetta gengur vel og sjá þetta skipulag. Mannmergðina. Þetta er alveg dásamlegt,“ segir Þórólfur.

Það var greinilegt að fólki var létt að fá loks bólusetningu við farsóttinni og margir höfðu á orði að það væri sérstaklega traustvekjandi að vera bólusettur á sama tíma og sóttvarnalæknir sem augljóslega nýtur mikils trausts og virðingar.
„Þetta er alveg dásamlegt, jú að vera í sviðsljósinu. Hann er bara stórkostlegur. Það eitt er hægt að segja.“
Það var klappað fyrir honum þegar hann kom?
„Algerlega. Ég tók vel undir það,“ sagði Elísabet Pétursdóttir sem sat skammt frá Þórólfi og beið eftir sprautunni. Skammt frá henni sat Erla Ríkharðsdóttir sem var bólusetningunni fegin.

Hvernig líður þér að koma hingað í bólusetninguna í dag?
„Bara æðislegt. Loksins,“ sagði Erla.
Og ekki verra að vera á sama tíma og Þórólfur?
„Nei, nei það er hið besta mál.“
Ekkert hrædd við AstraZeneca?
„Nei, nei, nei, nei. Við treystum bara fólkinu okkar sem segir að þetta sé í lagi,“ sagði Erla.
Sóttvarnalæknir er ánægður með daginn og vonar að hann fái einhverjar aukaverkanir eftir sprautuna í dag.
Þú fékkst hjartnæmar móttökur?
„Algjörlega og bara mjög snortinn af því.“
Heldur þú að þú fáir einhverjar aukaverkanir?
„Örugglega. Vegna þess að ef ég fengi engar myndi ég vera næstum viss um að bóluefnið væri ekki að virka.“
Þannig að þú verður ánægður að finna aðeins til á eftir?
„Já, ég er það,“ sagði Þórólfur Guðnason.