Tekjur samstæðunnar jukust um 15% frá fyrra ári og voru 12,2 milljarðar króna árið 2020 samanborið við 10,6 milljarða. Lyfja rekur lyfjaverslanir, heilsuvöruverslanir undir merkjum Heilsuhússins og heildsölu sem sérhæfir sig í innflutningi á heilsuvörum.
Fram kemur í tilkynningu frá félaginu að framlegð af vörusölu hafi numið 33% á síðasta ári. Er álagning Lyfju sögð hafa farið lækkandi undanfarin ár, bæði vegna verðsamkeppni en einnig vegna ákvarðana Lyfjagreiðslunefndar. Beinn launakostnaður og starfsmanntengdur kostnaður vegna COVID-19 nam alls 50 milljónum króna á árinu.
Að sögn stjórnenda hafði heimsfaraldurinn mikil áhrif á rekstur Lyfju á árinu og þurfti meðal annars að bregðast við miklum breytingum á neysluhegðun.
„Lyfja hefur á að skipa hópi framúrskarandi starfsmanna, lyfjafræðinga, afgreiðslufólks, lyfjatækna, hjúkrunarfræðinga og annarra sérfræðinga. Það er sýn okkar allra að lengja líf og auka lífsgæði, einfalda viðskiptavinum að koma í veg fyrir veikindi, bjóða heilbrigða og umhverfisvæna valkosti og vera til staðar þegar á þarf að halda. Árið 2020 var bæði krefjandi og árangursríkt í rekstri Lyfju, eitt það eftirminnilegasta á okkar starfsævi,“ segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Lyfju í tilkynningu.
Alls starfa tæplega 350 starfsmenn hjá Lyfju samstæðunni í um 240 stöðugildum, um þriðjungur starfsmanna Lyfju eru sérhæfðir heilbrigðisstarfsmenn og 83% starfsmanna eru konur.