Guðbjörn segir að fyrstu niðurstöður í rannsókn embættis Landlæknis sýni að mistök hafi verið gerð í umönnun á dóttur hans, Sólveigu Elísabetu Segler Guðbjörnsdóttur, sem svipti sig lífi árið 2019 eftir að hafa ítrekað leitað til geðdeildar Landspítalans.

„Mér finnst líka óþægilegt, erfitt og sársaukafullt að ræða þessa hluti. Ég er afskaplega þreyttur eftir þessa viku af því að allt rifjast upp fyrir mér,“ skrifar Guðbjörn í færslu í tilefni af mikilli umræðu í samfélaginu um kynferðisbrot undanfarna daga.
Elísabet dóttir hans hafði árum saman fyrir andlát sitt glímt við eftirköst nauðgunar sem hún varð fyrir á unglingsaldri. Hún kærði en tapaði málinu fyrir tveimur dómstigum.
„Hún jafnaði sig aldrei á nauðguninni og enn síður af sýknudómi Héraðsdóms Reykjavíkur og Hæstaréttar Íslands,“ skrifar Guðbjörn, sem veitti Vísi leyfi til þess að fjalla um færslu hans.
Guðbjörn gagnrýnir ekki aðeins dómskerfið fyrir að hafa ekki trúað dóttur sinni, heldur einnig Landspítalann, sem brást henni þegar hún leitaði hjálpar.
„Nóttina sem henni tókst að binda enda á þjáningar sínar var henni hent út af bráðamóttöku LSH snemma morguns og út á bílaplanið. Hún komst heim við illan leik og um tveimur klukkustundum síðar var hún farin frá okkur,“ skrifar Guðbjörn.
„Ekki þess virði að hjálpa eða bjarga“
Elísabet tjáði sig opinskátt og opinberlega um sára reynslu sína á sínum tíma, eins og lesa má um í þessari grein. Að sögn föður hennar var hún orðin eins og skuggi af sjálfri sér eftir nauðgunina og veikindi hennar ágerðust.
Elísabet reyndi að leita sér hjálpar hjá geðdeild Landspítalans en þar fann hún að sögn Guðbjörns enga hjálp.
„Hún var lögð nokkrum sinnum á bráðamóttöku LSB í einhverskonar geðrofi og vandræðum eða eftir sjálfsmorðstilraunir og þar var ekki neina hjálp að finna. Elísabet var að mati geðheilbrigðiskerfisins ekki þess virði að hjálpa eða bjarga, enda að þeirra mati ekki í "viðkvæmum hóp" eða með frægt podcast.
Við foreldrarnir og systur hennar reyndum að fá hjálp hjá kerfinu en þar var enga hjálp að fá. Þrátt fyrir að við segðum LSH margsinnis að hún væri í lífshættu var ekki hlustað á okkur. Elísabet sjálf sagði a.m.k. fjórum sinnum á LSH að hún ætlaði að fremja sjálfsmorð en enginn trúði henni. Þetta fór inn um annað eyrað og út um hitt,“ skrifar Guðbjörn.
Af þessum sökum sendi Guðbjörn inn kvörtun til Landlæknis um þá meðferð, eða skort á meðferð, sem dóttir hans hlaut. Embættið tók málið til rannsóknar og fyrstu niðurstöður benda að sögn Guðbjörns til þess að mistök hafi átt sér stað.
„Ég bíð enn lokaniðurstöðu Landlæknis. Ég er ekki bjartsýnn á að hún verði góð og það er af því að ég er mikill raunsæismaður. Það trúir nefnilega í raun enginn fórnarlömbum kynferðisofbeldis. Fólki finnst óþægilegt að ræða nauðganir eða geðrænan vanda fólks, ekki síst ef þetta fer saman.“