Þrír greindust með kórónuveiruna innanlands í gær, þar af einn utan sóttkvíar. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir tvo hafa greinst á landamærunum með indverkst afbriði veirunar að undanförnu. Báðir séu í sóttkví í sóttvarnahúsi.

„Ég held að það sé engin sérstök ástæða til að hafa áhyggjur af því. Alla vega á þessari stundu. Þetta var fólk sem var að koma erlendis frá og greindist á landamærunum. Þannig að ég hef fulla trú á að þær ráðstafanir sem við erum með í gangi muni koma í veg fyrir að við fáum einhverja útbreiðslu,“ segir Þórólfur. Bólusetningar gangi vel á sama tíma og farþegum til landsins fari fjölgandi.
Almannavarnastig vegna covid hefur verið fært úr neyðarástandi í hættustig og líkur á að sóttvarnatakmörkunum innanlands verði aflétt enn frekar í næstu eða þar næstu viku í samræmi við afléttingaráætlun stjórnvalda.
Þórólfur segir einnig koma til greina að breyta ráðstöfunum á landamærunum.
„Þetta helgast allt af greiningargetunni inni á rannsóknarstofu. Hvað getum við annað mörgum sýnum. Ef það er alveg augljóst að við getum ekki annað þeim fjölda sýna sem við þurfum að taka þurfum við að hugsa þetta upp á nýtt. Annað hvort þurfum við að breyta skipulaginu. Taka sýnin öðruvísi, taka færri sýni eða greina sýnin einhvern veginn öðruvísi,“ segir Þórólfur

Reiknað er með að lokið verði við bólusetningu allra forgangshópa eftir um hálfan mánuð og þá verði byrjað að boða þá sem eftir eru með slembiúrtaki. Sóttvarnalæknir segir þetta engu breyta um að hjarðónæmi verði vonandi náð um mánaðamóti júní – júlí.
Alma Möller landlæknir hvetur alla til að uppfæra rakningarappið með því að opna gamla appið.
„En við teljum að það verði afar mikilvægt nú á næstunni þegar við vonandi förum að slaka meira á hér innanlands. Smitrakning er og verður einn af hornsteinum okkar aðgerða til að spirna við covid 19,“ segir Alma.

Ólafur Ragnarsson verkefnastjóri hjá embætti landlæknis segir nýja appið geta rakið saman fólk sem þekkist ekki þar sem persónuverndar sé þó gætt í hvívetna.
„Ef við myndum standa hér og tala saman í fimmtán mínútur og svo færi ég í sýnatöku eftir tvo daga og reyndist jákvæður myndi ég senda lyklana mína og þú fengir þá tilkynningu og viðvörun. En þú veist ekki hvaðan það kemur,“ segir Ólafur.