Þar sagði hún einnig að á næsta kjörtímabili þyrfti að halda áfram „að halda vel utan um fólk og gæta að félagslegum jöfnuði.“
„Heimsfaraldur Covid-19 hefur haft í för með sér áskoranir fyrir landsmenn og við þurfum til dæmis að tryggja atvinnu fyrir alla og missa ekki sjónar á að bæta þarf stöðu þeirra sem glíma við erfiðleika vegna faraldursins. Að því höfum við unnið og því verður fylgt fast eftir.
Umhverfis- og loftslagsmál eru lykilmál og náttúruvernd verður alltaf að vera í brennidepli og hverfa þarf frá sóun og ágengri nýtingu.
Við þurfum að tryggja að unga fólkið okkar vilji búa og starfa hér á landi, það geti komið sér upp húsnæði við hæfi, búi við trygg kjör, fæðingarorlof og gott stuðningskerfi í námi.
Uppeldi og menntun eiga að vera í fyrirrúmi ásamt stuðningi við börn sem á honum þurfa að halda.
Kynjajafnrétti og önnur jafnréttismál eru mikilvæg í allri pólitík og til að fullum jöfnuði verði náð má aldrei missa sjónar á mikilvægi kynjasjónarmiða í allri ákvarðanatöku.“