Allur hópurinn hefur farið í skimun eftir að smitið greindist en niðurstaðna er að vænta eftir hádegi í dag.
Felix Bergsson fararstjóri segir að ákveðið hafi verið að gefa ekki upp hver er smitaður af hreinum og klárum persónuverndarástæðum.
„Fólk ræður því sjálft hvort það segi frá sínum veikindum. Enginn má gefa upp heilsufar annarrar manneskju. Það er lögbrot,“ segir Felix í samtali við Vísi.
Upptaka er til af atriði Daða, sem verður spiluð í því óheppilega tilviki að fleiri smit greinist í hópnum og að Daði og Gagnamagnið fái þess vegna ekki að stíga á svið í beinni. Ísland keppir því í Eurovision, sama hvað.

Niðurstöður úr skimunum munu gefa vísbendingar um það hvort Daði komist á svið í undankeppninni á fimmtudaginn.
Hinn smitaði er ekki hluti af hljómsveitinni sem fer á svið en hefur þó, sem hluti af hópnum, verið í samneyti við Daða og Gagnamagnið.
„Við erum auðvitað öll saman í einni sendinefnd, þannig að við erum saman í því sem við erum að gera,“ sagði Felix í Bítinu á Bylgjunni í morgun.