„Ég er virkilega ánægður að hafa sloppið frá þessum leik, þeir voru rosalega ‚physical‘ og rosalega góðir. Að sama skapi vorum við mjög flatir í fyrri hálfleik. Við vorum búnir að ræða um það fyrir leik, verandi 2-0 yfir þá er hætta á þessu. Við náum svo að snúa þessu við í þriðja leikhluta með meiri orku í rauninni. Við hækkuðum orkustigið sem var frábært,“ Sagði Hörður Axel í viðtali eftir leik.
„Við vorum að framkvæma vel síðustu þrjár til fimm mínúturnar, þar sem við erum að mjólka það sem okkur fannst virka vel í gegnum leikinn. Svo fengum við þau stopp sem við þurftum á að halda.“
Í öðrum leikhluta var Hörður að útskýra fyrir einum dómara leiksins hvað væri villa beint fyrir framan fjölmiðla aðstöðuna, eftir að honum fannst vera brotið á sér undir körfunni. Hörður var spurður út í þessar viðræður hans við dómarann.
„Þetta er bara hluti af leiknum, manni finnst alltaf verið brotið á sér. Ég fór yfir það með sjálfum mér í hálfleik að þetta var í raun bara illa gert hjá mér. Ég var mikið að keyra á körfuna og leita af snertingu í stað þess að fara í einföld skot. Ég breytti því í seinni hálfleik,“ svaraði Hörður.
Hörður og félagar eru komnir í sjaldséð frí. Ef einhver viðureign átta liða úrslitanna fer alla leið í oddaleik þá fá Keflvíkingar að minnsta kosti viku pásu frá körfubolta. Hörður er samt ekki á því að taka fótinn af bensíngjöfinni og halda einhvern Eurovision fagnað í kvöld.
„Alls ekki. Við erum bara á okkar vegferð. Þótt við séum komnir í gegnum átta liða úrslit þá erum við ekkert komnir þangað sem okkur langar að vera. Við fögnum þegar því takmarki er náð,“ sagði Hörður Axel Vilhjálmsson að lokum.