Körfubolti

Þriðja tap Tryggva og félaga í röð

Valur Páll Eiríksson skrifar
Tryggvi Snær skoraði sjö stig í dag.
Tryggvi Snær skoraði sjö stig í dag. NurPhoto via Getty Images/Oscar Gonzalez

Tryggvi Snær Hlinason kom lítið við sögu í stórtapi liðs hans Zaragoza fyrir Murcia í spænsku úrvalsdeildinni í körfubolta í dag.

Aðeins tveimur stigum munaði á liðunum tveimur fyrir leik dagsins. Murcia var með 30 stig í 12. sæti en Zaragoza með 28 stig sæti neðar.

Zaragoza gat því jafnað Murcia að stigum með sigri en lið Murcia kom töluvert sterkara til leiks. Liðið leiddi 29-19 eftir fyrsta leikhluta og leit aldrei um öxl. Liðið bætti jafnt og þétt við forystu sína og vann að lokum 91-68 sigur.

Tryggvi Snær spilaði tæpar 13 mínútur í leiknum þar sem hann skoraði sjö stig og tók þrjú fráköst.

Tapið er það þriðja í röð hjá Zaragoza og er liðið sem fyrr með 28 stig í 13. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×