Íslenski boltinn

Tveir Blikar fengu inngöngu í Harvard

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hildur Þóra Hákonardóttir og Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir eru á leið í Harvard.
Hildur Þóra Hákonardóttir og Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir eru á leið í Harvard. vísir/bára/vilhelm

Tveir leikmenn Breiðabliks hafa fengið inngöngu í einn virtasta og frægasta háskóla heims, Harvard í Massachusetts í Bandaríkjunum.

Þetta eru þær Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir og Hildur Þóra Hákonardóttir. Þær hefja nám við Harvard í haust og klára því ekki tímabilið með Breiðabliki.

Áslaug Munda, sem verður tvítug á miðvikudaginn í næstu viku, hefur byrjað tímabilið af miklum krafti eftir að hafa verið mikið frá vegna meiðsla og veikinda í fyrra. Hún hefur leikið fjóra A-landsleiki auk fjölda leikja fyrir yngri landsliðin.

Hin tvítuga Hildur Þóra, sem er uppalinn Bliki, lék þrettán af fimmtán leikjum Breiðabliks í Pepsi Max-deildinni í fyrra þar sem liðið stóð uppi sem Íslandsmeistari. Hún hefur leikið 25 leiki fyrir yngri landsliðin.

Áslaug Munda fékk sérstaka viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur í námi og fótbolta þegar hún útskrifaðist frá afrekssviði Menntaskólans í Kópavogi í fyrra.

„Já, maður lagði mikið á sig til þess að ná þessum einkunnum og samhliða því árangri í fótboltanum,“ segir Áslaug Munda í samtali við Guðjón Guðmundsson í Sportpakkanum eftir að hún útskrifaðist úr MK.

Breiðablik sækir Val heim í stórleik 5. umferðar Pepsi Max-deildarinnar klukkan 18:00 á fimmtudaginn.


Pepsi Max deild kvenna er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×