Innlent

Sunn­lenskur sandur skýringin á slæmu skyggni

Sylvía Hall skrifar
Eins og sjá má er ekki frábært skyggni í Reykjavík þessa stundina.
Eins og sjá má er ekki frábært skyggni í Reykjavík þessa stundina. Vísir/Sylvía

Grátt er yfir höfuðborginni þessa stundina og mælast loftgæði óholl í Kópavogi og miðsvæðis í Reykjavík. Að sögn veðurfræðings er skýringin á þessu rykmengun frá söndum Suðurlandsins sem berst með suðaustanátt.

„Það er búið að vera rosalega þurrt þannig að sandarnir eru allir mjög þurrir í kringum Markarfljót og nágrenni þess. Suðaustanáttin ber þetta bara beint hingað,“ segir Eiríkur Örn Jóhannesson veðurfræðingur í samtali við Vísi.

Hann segir ástæðu fyrir þá sem eru viðkvæmir fyrir slíku að fara varlega. „Sem svifryksmengun er þetta ekki æskilegt. Þetta hefur sömu áhrif og svifryksmengun á veturna út af nagladekkjum - þetta er svipuð kornastærð.“

Að sögn Eiríks er suðaustanátt í kortunum fram á sunnudag.  Á morgun tekur gul veðurviðvörun gildi um hádegi fyrir Faxaflóasvæðið, Suðvesturland og Miðhálendið vegna hvassviðris og verður hún í gildi fram á laugardag.

Þó ætti að blotna eitthvað aðfaranótt laugardags og því líkur á betra skyggni um helgina.

„Þá hættir þetta mjög líklega. Það hjálpar ekki hvað sandarnir eru þurrir og þess vegna er þetta svona öfgamikið. Það er allt alveg skraufþurrt eins og við sjáum með gróðureldana.“

Loftgæði mælast óholl þessa stundina.Umhverfisstofnun



Fleiri fréttir

Sjá meira


×