Guðmundur greinir frá þessu í myndbandi á Facebook í dag. Gert var ráð fyrir að taugarnar myndu vaxa á meðalhraða og næðu þá niður í olnboga eftir um það bil eitt ár og síðan niður í fingur eftir tvö ár.
„En skítt með meðaltalið. Í dag hreyfði ég upphandleggsvöðvann. Ég er finn fyrir taugaendunum vaxa og finn fyrir taugunum í framhandleggnum nálgast höndina,“ segir hann. „En ég er ekki farinn að geta hreyft mig þar en ef þið lítið á upphandleggsvöðvann á mig sjáiði að ég get hreyft þennan andskota.“
Á myndbandinu má svo sjá Guðmund hnykla hægri vöðvann.
„28. maí er dagurinn sem ég gat allt í einu hreyft vöðvann í fyrsta skipti. Hvern dag héðan í frá á þetta bara eftir að verða betra.“