Innlent

Hvalaskoðun er að fara aftur af stað á Húsavík

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Stefán Guðmundsson, eigandi hvalafyrirtækisins Gentle Giants á Húsavík.
Stefán Guðmundsson, eigandi hvalafyrirtækisins Gentle Giants á Húsavík. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Hvalaskoðunarferðir með ferðamenn eru nú hafnar á ný á Húsavík eftir rólegheit vegna heimsfaraldursins. Mikið af hval er alltaf á Skjálfandaflóa enda svæðið talið eitt það besta í Evrópu til hvalaskoðunar.

Hvalaskoðunarfyrirtækið Gentle Giants á Húsavík er eitt af hvalafyrirtækjum staðarins, sem er með fimm RIB slöngubáta til að fara út á haf til að skoða hvali. Stefán Guðmundsson, eigandi fyrirtækisins segir að nú séu að hrúgast inn bókanir fyrir sumarið, sem sé mjög ánægjulegt. Hann segir alltaf nóg af hvali á svæðinu.

„Já, það er búið að vera á hverju einasta ári frekar vaxandi heldur en hitt og ekki að ástæðulausu því að Skjálfandinn og Húsavík hafa verið kölluð jafnvel bestu hvalaskoðunarsvæði Evrópu ef ekki í heiminum“.

Stefán segir gesti hvalaskoðunarferða mjög ánægða með báta fyrirtækisins.

„Já, þetta eru þessir RIB bátar, slöngubátar, sem að eru feikilega öflugir og traustir. Þetta eru algjörar sjóborgir en við eigum fimm svona báta þar sem fer vel um alla og allir eru í skýjunum með."

Fyrirtæki Stefáns er með fimm RIB báta, sem hafa reynst einstaklega vel í hvalaskoðunum.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Sumarið leggst mjög vel í Stefán og hans fólk.

„Það leggst vel í okkur, það eru allir orðnir svolítið hungraðir, vilja fá mikið að gera og smá aksjón og allir eru tilbúnir að taka á móti öllum, sem vilja koma og við bjóðum auðvitað alla sérstaklega velkomna til Húsavíkur,“ segir Stefán.

Stefán reiknar með að sumarið verði mjög gott í hvalaskoðun eftir rólegheit undanfarið vegna heimsfaraldursins.Magnús Hlynur Hreiðarsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×