Uppákoman átti sér stað í fataverslun í Seúl 9. apríl. Eiginkona sendiherrans hafði þá skoðað föt um nokkra hríð en þegar hún fór út elti afgreiðslufólk hana þar sem það grunaði hana um hnupl. Hún brást við með því að slá afgreiðslukonu og ráðast að annarri.
Peter Lescouhier, sendiherra Belgíu í Suður-Kóreu, baðst afsökunar á framferði Xiang Xueqiu, eiginkonu sinnar, og hún hitti síðar starfsmanninn sem hún sló til að biðjast afsökunar fyrir sitt leyti.
Engu að síður ákvað utanríkisráðuneytið að Lescouhier væri ekki lengur sætt sem sendiherra eftir uppákomuna, jafnvel þó að hann hefði að öðru leyti sinnt starfi sínu með sóma, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.
Þrátt fyrir að belgísk stjórnvöld segja að þau hafi afsalað sér friðhelgi fyrir hönd Xiang segir suður-kóreska utanríkisráðuneytið að henni hafi aðeins verið afsalað að hluta. Sendiherrafrúin njóti áfram friðhelgi fyrir saksókn og refsingu, að sögn AP-fréttastofunnar.