Um er að ræða niðurstöður rannsóknar Strategic Organizing Center (SOC), bandalags verkalýðsfélaga, en þær byggja á tilkynningum til bandaríska vinnueftirlitsins á árnunum 2017 til 2020.
Amazon hefur löngum sætt gagnrýni vegna þess starfsumhverfis sem starfsfólk býr við, sem má ekki síst rekja til mikillar áherslu fyrirtækisins á hraða afgreiðslu. Þannig hefur meðal annars verið greint frá því að bílstjórar hafi neyðst til að gera þarfir sínar í flöskur og poka, þar sem þeir hafa ekki tíma til að stoppa til að fara á salernið.
Þá var Amazon sakað um það í upphafi kórónuveirufaraldursins að hafa „stytt sér leið“ þegar kom að varrúðarráðstöfunum vegna Covid-19.
Samkvæmt skýrslu SOC meiðast starfsmenn vöruhúsa Amazon ekki aðeins oftar en starfsmenn annarra vöruhúsa heldur eru meiðsl þeirra alvarlegri. Starfsmenn Amazon voru frá að meðaltali 46,3 daga í kjölfar slysa, um viku lengur en starfsmenn annarra vöruhúsa.
Fréttasíðan Motherboard birti fyrr í vikunni bækling, gefinn út af vöruhúsi Amazon í Tulsa, þar sem segir meðal annars að starfsmenn ættu að líta á sig sem „iðnaðaríþróttamenn“. Þeir mættu vænta þess að ganga 21 km á vakt og/eða lyfta 9 tonnum.