Í uppbótartíma fékk Grindavík innkast á miðjum vellinum, þeim megin sem varamannabekkirnir eru.
Óskari Valberg Arilíussyni, sem var skráður sem aðstoðarþjálfari á skýrslu, fannst boltastrákur Grindavíkur vera full lengi að koma boltanum í leik og hljóp að honum.
Á leið sinni til baka frá boltastráknum stjakaði Óskar við Sigurbirni Hreiðarssyni, þjálfara Grindavíkur, og svo liðsstjóranum Hauki Guðberg Einarssyni sem svaraði í sömu mynt.
Erlendur Eiríksson, dómari leiksins, kom þá aðvífandi og stíaði þeim í sundur. Hann gaf Óskari gula spjaldið en Hauki það rauða.
Myndband af atvikinu má sjá hér fyrir neðan. Myndasyrpu af því má svo sjá á vef Víkurfrétta.
Læti á Grindavíkurvelli í gær! pic.twitter.com/Ww1nL3JDmG
— Jón Júlíus Karlsson (@JonJKarlsson) June 4, 2021
Grindavík vann leikinn, 1-0, með marki Arons Jóhannssonar á 63. mínútu. Grindvíkingar eru í 3. sæti Lengjudeildarinnar með níu stig, þremur stigum á eftir toppliði Frammara. Selfyssingar eru aftur á móti í ellefta og næstneðsta sætinu með fjögur stig.