Þeir Svavar Ólafur Pétursson og Sigurður Hjörtur Þrastarson fengu það krefjandi verkefni að dæma leikinn í Kaplakrika í gær.
Mikil umræða skapaðist um dómgæsluna á samfélagsmiðlum í gær en ekki voru allir á eitt sáttir með hana.
Leikmenn og þjálfarar höfðu einnig eitt og annað við dómgæsluna að athuga. Í samtali við Vísi eftir leikinn kvaðst Sigursteinn Arndal, þjálfari FH, ósáttur við frammistöðu dómaranna.
„Ef þú vilt fá heiðarlegt svar fannst mér halla stórkostlega á okkur í dómgæslunni en ég fæ ekkert út úr því að væla yfir því. Svona er þetta,“ sagði Sigursteinn.
Sem fyrr sagði gáfu þeir Svavar og Sigurður sextán tveggja mínútna brottvísanir í leiknum. FH fékk ellefu brottvísanir og ÍBV fimm.
Í spilaranum hér fyrir neðan má sjá allar sextán brottvísanirnar í leiknum í Kaplakrika í gær.
Eyjamenn voru undir nánast allan leikinn en sneru dæminu sér í vil með frábærum endaspretti. Þeir skoruðu síðustu þrjú mörk leiksins og náðu jafntefli, 33-33. Einvígið endaði 54-54 en ÍBV skoraði fleiri útivallarmörk og fór því áfram.
Í undanúrslitunum mætir ÍBV sigurvegaranum úr einvígi Vals og KA. Valsmenn eru með fjögurra marka forskot eftir fyrri leikinn á Akureyri. Seinni leikurinn á Hlíðarenda hefst klukkan 20:00 í kvöld og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.

Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.