Gerður Björk Sveinsdóttir, vinkona Eyfa og Margrétar eiginkonu hans, er á meðal þeirra sem hratt af stað söfnuninni. Hún segir samfélagið á Patreksfirði slegið vegna fráfalls Eyfa, en fólk standi þétt saman.
„Síðustu dagar hafa verið mjög erfiðir og skrýtnir, en það hefur verið hér áfallateymi frá Rauða krossinum sem hefur verið opið öllum,“ segir Gerður. Hún bætir við að fjöldi fólks, til að mynda bekkjarfélagar barna Eyfa hafi nýtt sér þetta úrræði.
Þá var haldin bænastund í Patreksfjarðarkirkju síðastliðinn miðvikudag, sem fjölskylda Eyfa var viðstödd.

Gott að tilheyra samheldnu samfélagi
Gerður segir samfélagið á Patreksfirði hafa fylkt sér í kringum fjölskyldu Eyfa og sýnt henni mikinn stuðning á þessum erfiðu tímum.
„Það er afskaplega gott að vera hluti af litlu og samheldnu samfélagi þegar svona kemur upp. Samfélagið allt er tilbúið til að grípa og halda utan um þau og styðja þau. Ég veit að það verður þannig áfram. Það eru allir sem vilja reyna að gera eitthvað,“ segir Gerður.
Upplýsingar um styrktarreikninginn, sem eru á nafni Margrétar, eiginkonu Eyfa, má finna hér að neðan:
Kennitala: 190670-5039
Reikningsnúmer: 0123-15-030020